Hemmi Gunn, Pabbi og bílabrautir.

Ég man eftir einni auglýsingu sem beint var að mér á ósvífinn hátt þegar ég var krakki. Helvítið hann Hemmi Gunn reyndi að skrökva í mig, þessi annars geðþekki og skemmtilegi maður. Hemmi reyndi að troða inn hjá mér ranghugmyndum og espa mig upp á móti foreldrum mínum, láta mig terrorisera heimilið í hedónísku frekjukasti. Hann var sem sagt að reyna að selja mér bílabrautir. Í auglýsingunni mærði hann bílabrautir eins og við var að búast en klykkti svo út með orðunum "mundu eftir bílabrautum næst þegar þú ferð út í búð".

Mundu eftir.

Já, Hemmi lét sem svo að það þyrfti ekki annað en að muna eftir þessu smáræði. Einhvertíma sat ég og horfði á sjónvarpið þegar auglýsingin birtist á skjánum. Eftir að hafa setið eins og negldur og látið Hemma ljúga í mig snéri ég mér að að pabba. Þar blasti við mér furðuleg sjón. Pabbi var nefnilega að stara á mig í stað þess að horfa á sjónvarpið og áður en ég náði að segja nokkuð spurði hann, greinilega búinn að sálgreina mig "heldur þú að þetta sé svona einfalt, það þurfi bara að rétt sisvona að muna eftir að kaupa þetta eins og maður þarf að muna að þakka fyrir sig?" Svo útskýrði hann fyrir mér að það sem sölumönnum gengi til væri að hjálpa sér, ekki mér. Þessi ábending um að muna eftir einhverju væri annars eðlis en þegar mamma minnti mig á eitthvað. Sjálfur minnti hann mig aldrei á neitt því hann sagði aldrei neitt, í mesta lagi "jæja þú þarna strákur, nú förum við" ef ég hafði farið með honum í heimsókn eitthvað að honum fannst tími til að fara. En skilaboðin voru einföld, ef ég ginntist á einhverju sem reynt var að fá mig til trúa að ég þyrfti var ég búinn að tapa. Það heyrði upp á mig að velja hverju ég ætlaði að trúa og ég yrði að stóla á sjálfan mig í því (og hann náttúrulega).Um tuttugu árum seinna var ég staddur í einhverju partíi í Reykjavík. Einhver náungi vildi gefa mér merki sem á stóð "bankanum þínum þykir ekki vænt um þig". Ég hló að honum. "Auðvitað þykir honum ekki vænt um mig, samband okkar hefur aldrei verið tilfinningalegs eðlis, ég vil ekki að það sé tilfinningalegs eðlis. Hélstu það þarna vanvitinn þinn?" Hann þagði. Hemmi Gunn og pabbi hans höfðu sennilega ekki frætt hann nógu vel og hann hafði bláeygur fengið sé duglegan yfirdrátt og verið gerður eignalaus um tvítugt. 

Ég þurfti að komast í snertingu við þá báða til að læra þetta. Pabbi meinti vel, en ég þurfti líka að komast í bakteríuna til að ónæmiskerfið gæti þroskast. 

Ég eignaðist aldrei bílabraut. Langaði ekki í hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband